Alma - Þjónusta

Þjónusta

Alma leggur mikla áherslu á að viðskiptavinir félagsins njóti húsnæðisöryggis, góðrar þjónustu og sveigjanleika. Við bjóðum upp á langtímaleigu og hátt þjónustustig þegar kemur að viðhaldi fasteigna. Við vitum að aðstæður geta breyst og bjóðum leigutökum upp á sveigjanleika þegar þeir hafa þörf fyrir að stækka eða minnka við sig, til dæmis ef fjölskylduhagir breytast. Þannig tökum við þátt í því að gera leigumarkaðinn á Íslandi faglegri, fjölskylduvænni og traustari.

Langtímaleiga

Langtímaleigusamningur tryggir örugga búsetu og verðvernd. Meðal þess sem Alma býður viðskiptavinum sínum er ný tegund leigusamninga sem tryggir viðskiptavinum langtíma leiguöryggi á föstu leiguverði, sem aðeins er tengt við vísitölu neysluverðs. Samningarnir eru gerðir til árs í senn en að ári liðnu hefur leigjandinn einhliða rétt á að framlengja samninginn með viðauka um annað ár. Með þessum hætti getur leigjandi framlengt allt að sex sinnum eða í allt að sjö ár.

a) Mun leiguverð breytast við framlengingu?
Samningar verða bundnir vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, en felur það í sér að leiguverðið breytist á leigutímanum hlutfallslega miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs. Þegar samningur er framlengdur kæmi ekki til nein hækkun á leiguverði umfram breytingar á vísitölu neysluverðs og er leiguverð því tryggt til allt að sjö ára.

b) Er framlenging alltaf möguleg?
Að jafnaði er rétturinn til endurnýjunar alfarið í höndum viðskiptavinar og getur hann því í raun leigt eignina í allt að sjö ár. Í undantekningartilvikum mun framlenging þó ekki vera möguleg. Þau tilvik eru ef leigjandi hefur gerst sekur um vanefndir eða brot á leigusamningi sem varðað gátu riftun, ef leigjandi endurnýjar ekki bankaábyrgð eða vottorð
frá Leiguvernd vegna framlengds leigutíma, ef til stendur að selja leiguhúsnæðið á næstu sex mánuðum, eða ef nauðsynlegar og verulegar viðgerðir liggja fyrir á næstu sex mánuðum, sem gera húsnæðið óíbúðarhæft um a.m.k. tveggja mánaða skeið.

c) Er samningurinn uppsegjanlegur?
Viðskiptavinir hafa heimild til að segja upp leigusamningi sínum á samningstímanum. Uppsagnarfrestur er annað hvort 6 eða 3 mánuðir, en það fer eftir tegund samnings hvor uppsagnarfresturinn gildir. Samningurinn er óuppsegjanlegur af hálfu leigusala á leigutímanum.

d) Hversu háa tryggingu þarf að leggja fram?
Ef viðskiptavinir vilja fá leigusamning með föstu leiguverði í sjö ár er farið fram á að viðskiptavinir leggi fram tryggingu sem jafngildi þriggja mánaða leigu. Fyrir viðskiptavini sem hafa leigt hjá félaginu áður verður boðið upp á að dreifa tryggingunni sem bætist við niður á nokkra mánuði. Ef viðskiptavinir óska eftir styttri leigusamning, þ.e. 12 – 24 mánaða er farið fram á tryggingu sem jafngildir tveggja mánaða leigu.

e) Verða styttri samningar áfram í boði?
Viðskiptavinum verður áfram boðið upp á að velja styttri leigusamninga, 12 - 24 mánaða, með styttri uppsagnarfresti og tveggja mánaða tryggingu. Slíkir samningar henta þeim sem vilja leigja til skemmri tíma og hafa mikinn sveigjanleika.

Sveigjanleiki

Við hjálpum þér að skipta um hverfi, stækka eða minnka við þig eftir því sem hagir þínir eða óskir um búsetu breytast. Með fjölbreyttu úrvali af leiguíbúðum reynum við alltaf að koma til móts við þig eftir því sem framboð og aðstæður leyfa.

24/7 þjónusta

Hjá okkur starfar öflugt teymi sem sinnir viðhaldi íbúða og er þér innan handar með allt sem snýr að leigusamningnum þínum. Þökk sé góðu samstarfi við Securitas getum við tryggt aðgang að þjónustu allan sólarhringinn. Þú getur þess vegna haft samband við okkur hvenær sem er ef eitthvað kemur upp á sem krefst tafarlausra aðgerða.