Alma - „Heimilið mitt er hér“

„Heimilið mitt er hér“

Pedro Mendoza er 32ja ára gamall dansari frá Venesúela sem flutti til Íslands fyrir um þremur árum síðan til að flýja skelfilegar aðstæður í heimalandinu. Pedro leigir fallega íbúð hjá Ölmu við Grettisgötu í hjarta miðborgarinnar, en hann er hæfileikaríkur og vinmargur hér á landi þrátt fyrir stutta búsetu og segir Ísland vera sitt heimili til frambúðar.

Við kíktum í kaffi á Grettisgötuna, ræddum aðstæður í Venesúela, leiðina til Íslands og áætlanir Pedros og drauma um framtíðina.

„Ég kom fyrst til Íslands fyrir um tíu árum síðan, en bróðir minn hefur búið hér í mörg ár með fjölskyldunni sinni. Hann bauð mér í heimsókn og ég heillaðist strax af landinu. Ég sagði honum að ég elskaði þetta land og satt að segja langaði mig ekkert að fara heim, helst hefði ég viljað flytja hingað þá og þegar. Hins vegar var ljóst að erfitt væri að flytja hingað þar sem ég er frá Suður-Ameríku og þyrfti því að vera giftur Íslendingi, með atvinnuleyfi hér eða annað álíka,“ segir Pedro.

Á þessum tíma var hann aðeins 21 árs gamall, en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.

„Nú búum við öll á Íslandi, ég, bróðir minn, móðir mín og systir mín.“

Ástæðan fyrir því að Pedro tók loks skrefið og flutti eru skelfilegar aðstæður í Venesúela, sem flestir þekkja eflaust úr fréttum undanfarin ár.

„Fólk deyr vegna þess að það fær ekki mat eða lyf. Til þess að fá nauðsynjavörur þarftu að bíða heila nótt fyrir utan kjörbúðina og eftir slíka bið ferðu kannski heim með kíló af hrísgrjónum, baunir og tómatsósu. Oft þarf fólk að bíða í mörgum röðum til að ná saman í heila máltíð,“ segir Pedro.

Hann segir slíka bið fyrir utan búðina heldur enga skemmtun, enda standi fólk þar gjarnan í ótta um að verða fyrir aðkasti eða að eigum þeirra eða vörum verði stolið.

„Það er skortur á nánast öllu. Til dæmis er nánast ómögulegt að fá hjólbarða undir bíla. Á götum Maracay, borgarinnar minnar, voru venjulega um 120 strætisvagnar, en þegar ég flúði landið voru þeir kannski 20. Dæmin eru endalaus,“ segir Pedro.

pedro mamma og systir.jpg

Pedro ásamt móður sinni og systur eftir flutningana til Íslands. Ljósmynd/Pedro Mendoza

Missti kærastann sinn á götum borgarinnar

Pedro upplifði þær hættur sem íbúar landsins horfast í augu við á eigin skinni.

„Ég missti fyrrverandi kærastann minn á götum borgarinnar. Hann var skotinn fyrir framan mig. Við komum honum á spítala þar sem var farið með hann inn á sjúkrastofu, en hálftíma síðar kom læknirinn og tilkynnti mér að ekkert hefði verið hægt að gera. Hann var dáinn.“

Þrátt fyrri að vera ungur að árum hefur Pedro séð á eftir fleiri nákomnum þau ár sem hann bjó í Venesúela, en þannig hafi nokkrir vinir hans og kunningjar dáið í landinu, m.a. vegna sjúkdóma sem víðast hvar væri hægt að lækna eða halda niðri.

„Þeir sem fá t.d. HIV, þeir einfaldlega deyja. Lyfin sem halda sjúkdómnum niðri eru ekki í boði. Jafnvel þó yfirvöld eigi eitthvað af lyfjunum til þá er ekki sjálfgefið að fá þau, og ef þú ert samkynhneigður þá er algengt að skilaboðin séu bara þau að þetta sé þitt vandamál. Það er enga hjálp að fá,“ segir Pedro.

Móðir hans glímir jafnframt við veikindi og oft gat hún með engu móti nálgast nauðsynleg lyf. Að lokum varð úr að Pedro, móðir hans og systir ákváðu að freista þess að sækja um hæli á Íslandi fyrir um þremur árum síðan.

„Ferlið var allt mjög gott. Flest ríki heims þekkja ástandið í Venesúela svo það var tekið vel á móti okkur af íslenska ríkinu,“ segir Pedro, sem kveðst afar þakklátur íslenskum yfirvöldum og embættismönnum fyrir að hafa tekið fjölskyldunni svo vel og búið þeim gott líf hér á landi.

„Ég er líka sérstaklega þakklátur félagsráðgjafanum mínum, Helenu Wolimbwa, sem og Pimm Westra hjá Rauða krossinum. Þær hafa veit mér ómetanlega hjálp með andlega og líkamlega heilsu eftir að ég flutti til landsins.“

Kvaddi lífið í Venesúela

Þrátt fyrir að líka afar vel hér á landi er ljóst að breytingin var ekki sársaukalaus.

„Þetta er auðvitað erfitt þar sem allt mitt líf var í Venesúela. Ég var atvinnudansari þar og rak eigið fyrirtæki, dansskóla fyrir börn,“ segir Pedro, sem reimaði á sig dansskóna ungur að árum og hefur varla tekið þá af sér síðan.

„Ég hef dansað frá því ég var barn. Það er mikil dansmenning í Venesúela og við höfum marga ólíka hefðbundna dansa. Það eru mismunandi tónlistar- og dansstraumar milli borga, en við dönsum t.d. mikið tangó, salsa, cha cha og joropo.“

Með Palla o.fl..jpg

Pedro dansaði með Páli Óskari á Pride göngunni í fyrra. Ljósmynd/Pedro Mendoza

Dansferillinn er þó ekki það eina sem varð eftir í gamla heimalandinu.

„Pabbi minn býr enn í Venesúela. Ég sakna hans og er hræddur um hvað verður um hann,“ segir Pedro, sem reynir að senda föður sínum peninga reglulega og vill gjarnan fara og heimsækja hann og fleiri ættingja sína og vini einn daginn.

„Ég væri hins vegar hræddur að fara þangað núna. Ef fólk veit að ég bý í Evrópu, á Íslandi, þá er gengið út frá því að ég eigi pening. Ég væri hræddur um að vera rændur eða að mér yrði jafnvel rænt og fjölskyldan látin borga lausnargjald. Það er algengt í Venesúela,“ segir Pedro.

Fólkið þarf kraftaverk

Hann segir þá stöðu sem íbúar landsins horfast í augu við bæði sorglega og algjörlega óþarfa. Venesúela sé í grunninn frábært land, sem ætti að hafa alla burði til að tryggja íbúum sínum örugga og ánægjulega tilvist.

„Venesúela hefur upp á allt að bjóða. Við eigum fallega náttúru, olíu, demanta og gull. Ef stjórnarfarið væri í lagi ætti fólk að geta haft það betra en fólkið í Dubai.“

Vandamálið segir Pedro vera ríkisstjórn landsins, en sósíalistinn Nicolás Maduro hefur haldið um stjórnartaumana frá árinu 2013.

„Ef þú spyrð Siri í símanum þínum hver er forseti Venesúela færðu það svar að forsetarnir séu tveir. Hvernig eiga hlutirnir að geta gengið upp í landi þar sem eru tveir forsetar?“ segir Pedro.

Þannig sór Juan Guaido, forseti löggjafarþings landsins, embættiseið og lýsti sig réttmætan forseta ríkisins í janúar 2019. Þetta kom til eftir vægast sagt umdeildan sigur Maduros í kosningum árið 2018, en fjölmörg nágrannaríki Venesúela, auk Kanada, Bandaríkjanna og Evrópusambandsins höfðu lýst því yfir að kosningasigur Maduros væri ekki marktækur.

Aðspurður hvað þarf að koma til þannig að ástandið batni í landinu er Pedro ómyrkur í máli.

„Það þarf kraftaverk. Fólkið í Venesúela þarf kraftaverk.“

Ferskt loft, en ansi kalt

Pedro segir lífið á Íslandi gott, en landið sé allt afar ólíkt því sem hann átti að venjast í um 7.000 kílómetra fjarlægð í Suður-Ameríku.

„Hér er ferkst loft, en í Venesúela er nánast alltaf heitt. Fyrst þegar ég flutti átti ég erfitt með að fara út vegna kulda, en svo venst það eins og allt annað. Ég sagði bara við sjálfan mig: Nú býrðu á Íslandi, lífið þitt er hér. Maður verður einfaldlega að aðlagast því,“ segir Pedro, sem reynir þó að halda góðu sambandi við fólkið sitt í Venesúela, auk þess að halda í ýmsa siði frá heimalandinu og elda venesúelskan mat.

_DSC0855.jpg

Arepas eru vinsæll réttur í Venesúela, sem Pedro eldar reglulega á Grettisgötunni. Ljósmynd/Ásta Björk Andersen

Hann segir gott að búa á Grettisgötunni, þar sem hann er nálægt bæði vinum sínum og fjölskyldu.

„Mér líður vel hér, það er skemmtilegt mannlíf í hverfinu og stundum rölta vinir mínir meira að segja af djamminu og kalla á mig; Pedro, komdu út! Mamma mín býr á Mýrargötu og bróðir minn býr hér á Grettisgötu, svo þetta hentar vel.“

Þrátt fyrir að vera hringamiðja skemmtanalífs í Reykjavík segir Pedro miðbæinn nánast vera eins og sveit miðað við miðborg Maracay.

„Í Maracay er varla hægt að hreyfa sig fyrir fólki, þar eru brjáluð partý í miðbænum og klúbbar af öllum stærðum og gerðum. Þar er Kanaríeyjaklúbbur, klúbbur með arabísku þema o.s.frv., miklu fleiri staðir en hér. Partíin þar enda hins vegar oft með miklum látum og jafnvel ofbeldi. Hér er skemmtanalífið hæfilegt, ekki of mikið.“

Spurður hvort hann þekki alla í bænum

Pedro þekkir skemmtanalífið í Reykjavík ágætlega, en auk þess að starfa hjá bílaleigunni Höldur í Skeifunni og sinna einstaka dansverkefnum hefur hann tekið að sér vinnu á skemmtistöðunum Sólon, B5 og Austur.

„Maður fer fljótt að þekkja marga úti á lífinu og vinir mínir hafa stundum spurt hvort ég þekki hreinlega alla í bænum,“ segir Pedro og hlær.

Hann segir Íslendinga vinalega, en þó langtum feimnari en gengur og gerist í Venesúela.

„Vinnufélagar mínir á bílaleigunni voru margir feimnir í fyrstu, en í dag erum við öll miklir vinir. Ég hef svo kynnst alls konar áhugaverðu fólki hér. Til dæmis dansaði ég með Páli Óskari í Pride göngunni í fyrra og hann er orðinn góður vinur minn. Hann er alveg frábær.“

Pedro viðurkennir að íslenskan geti sannarlega verið snúin að læra, en hefur ekki látið það stöðva sig.

„Íslenskan er erfið, en ekki ómöguleg. Þú þarft að æfa þig stöðugt og ef þú vilt læra þá geturðu það. Ef þú ætlar fá góða vinnu hér þá þarftu að tala íslensku, rétt eins og ef þú vilt fá góða vinnu í Suður-Ameríku þá þarftu að læra spænsku.“

p í bol.jpg

Pedro hefur náð góðum árangri við að læra bæði íslensku og ensku. Ljósmynd/Pedro Mendoza

Lærir íslensku og ensku upp á eigin spýtur

Þannig talar Pedro nú þegar ágæta íslensku, en er einnig altalandi á ensku, tungumáli sem hann talaði lítið sem ekkert þegar hann flutti til landsins.

„Ég hef aldrei farið í skóla og lært ensku, ég æfði hana bara hér. Ég æfi mig á hverjum degi og geri það sama með íslenskuna. Mér finnst gott að reyna að tala sem mest við vini mína og þeir leiðrétta mig ef ég segi eitthvað vitlaust. Hins vegar þarf ég að fara á námskeið til að ná tökum á stafsetningunni, íslensk stafsetning getur verið ansi flókin.“

Pedro líkar vel í lífi og starfi og hefur ýmsa drauma og áætlanir um framtíðina.

„Í framtíðinni langar mig að byrja að dansa á ný. Ég dansaði fyrir ári síðan hér á listahátíð í Reykjavík með hóp frá Kanada, auk þess sem ég dansaði auðvitað með Páli Óskari á Pride. Ég hef farið í einhverjar prufur og er kominn með ágæt sambönd inn í listaheiminn á Íslandi,“ segir Pedro, sem segir ýmislegt í boði í dansinum hér þrátt fyrir smæð landsins.

„Ég þekki fólk frá Mexíkó, Kúbu og fleiri stöðum sem er á fullu að dansa hér. Tækifærin eru til staðar í dansinum, en ég þarf líka að vinna til þess að eiga fyrir praktískum hlutum; mat, reikningum o.s.frv.“

Sömuleiðis dreymir Pedro um að geta farið reglulega til Venesúela, heimsótt þar pabba sinn og aðra ættingja og vini. Hann segist þó ekki hafa áhuga á að flytja til baka, hvorki í nálægri né fjarlægri framtíð.

„Heimilið mitt er hér. Ég var á Spáni með vini mínum í fyrra og var búinn að vera á flakki um Barcelona í nokkra daga, þegar ég sagði við hann; Nú langar mig heim. Hann hélt að ég ætti við Venesúela, en ég sagði; Nei, heim til Íslands. Þegar ég var kominn hingað heim í stofu nokkrum dögum síðar leið mér vel, ég fann að ég var kominn heim.“

Við þökkum Pedro kærlega fyrir spjallið og fyrir að hafa komið til Íslands með alla sína hæfileika og hlýju.

Viðskiptavinir Ölmu koma frá öllum heimshornum og auðga samfélagið með nýjum hugmyndum, menningu og matargerð. Næstu vikur heimsækjum við einstaklinga úr öllum áttum, tökum þá tali og kynnumst þeirra gömlu heimalöndum, leiðinni til Íslands og lífinu hér.