Alma íbúðafélag | Áhættustefna

Áhættustefna

Við samningu áhættustefnu Ölmu íbúðafélags hf. kt. 611013-0350 (hér eftir „félagið“) voru leiðbeiningar Viðskiptaráðs, Nasdaq OMX Iceland og Samtaka Atvinnulífsins um stjórnarhætti hafðar til hliðsjónar.

Markmið með formfastri áhættustefnu er að stjórn og starfsmenn félagsins séu upplýstir um þá innri og ytri áhættuþætti sem felst í starfsemi félagsins. Formfest markviss áhættustýring og ferlar skulu vera starfræktir innan félagsins og hafa raunverulegt vægi fyrir ákvarðanatöku.

Einnig þarf að tryggja að verklag sé reglulega uppfært til að hægt sé að koma fyrir að áhættuþættirnir hafi neikvæð áhrif á starfsemi félagsins, fjárhag þess og hagsmuni fjárfesta.

Með það að augnamiði að ná ofangreindum markmiðum mun stjórn greina og skilyrða á ársgrundvelli þá áhættu, eðli hennar og umfang, sem félagið þarf að takast á við í starfsemi sinni sem felst í eignarhaldi, umsýslu og útleigu á íbúðarhúsnæði til almennings.

Samhliða þessu hlutverki þarf stjórn félagsins að tryggja að fullnægjandi kerfi innra eftirlits sé til staðar, og að það sé formlegt og skjalfest. Innra eftirlit stuðlar að því að markmiðum um árangur og skilvirkni, að fjárhagsupplýsingar séu áreiðanlegar og réttar og að félagið hlíti þeim lögum sem um starfsemina gildir. Stjórn ber ábyrgð á innra eftirliti og þarf reglulega að staðreyna virkni þess.

Stjórn félagsins setur því áhættumörk og viðmið fyrir skilgreinda áhættuþætti í starfseminni. Mörk og viðmið skulu vera skrifleg og endurskoðuð reglulega, þó aldrei sjaldnar en einu sinni á ári, en oftar ef efni standa til.

Framkvæmdastjóri annast reglulega upplýsingagjöf til stjórnar, og tryggir meðal annars stjórn fái upplýsingar um niðurstöður áhættuskýrslna. Þá skal hann sjá til þess að stjórn fái tafarlaust upplýsingar um það ef upp kemur alvarleg staða áhættuþátta félagsins.

Áhættustefna Ölmu íbúðafélags var samþykkt af stjórn þann 14. september 2021.