Þjónusta| Íbúðir til leigu

Þjónusta

Langtímaleiga

Alma leggur mikla áherslu á að viðskiptavinir félagsins njóti húsnæðisöryggis, góðrar þjónustu og sveigjanleika. Við bjóðum upp á langtímaleigu og hátt þjónustustig þegar kemur að viðhaldi fasteigna. Við vitum að aðstæður og fjölskylduhagir geta breyst og bjóðum við því viðskiptavinum okkar upp á sveigjanleika þegar þeir hafa þörf fyrir að stækka eða minnka við sig. Þannig tökum við þátt í því að gera leigumarkaðinn á Íslandi faglegri, fjölskylduvænni og traustari.

Mun leiguverð breytast við endurnýjun?
Samningar eru bundnir vísitölu neysluverðs, en það felur í sér að leiguverðið breytist á leigutímanum hlutfallslega miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs. Við endurnýjun leigusamningur er möguleiki að leiguverð muni breytast í samræmi við markaðsverð á svæðinu á þeim tíma.

Hvað er vísitala neysluverðs?

Vísitala neysluverðs er algengasti mælikvarðinn á verðbólgu og segir til um breytingar á verðgildi eða kaupmætti peninga. Vísitalan mælir í hverjum mánuði verðbreytingar á ákveðnum vörum og þjónustu sem mynda grunn vísitölunnar. Í grunninum eru áætluð ársútgjöld meðalheimilis til kaupa á vöru og þjónustu. Nánar um vísitölu neysluverðs má lesa inn á vef Hagstofu Íslands.

Er framlenging alltaf möguleg?
Þegar líða fer að lokum leigusamnings, eða um þremur mánuðum áður en samningi lýkur, höfum við samband við þig og bjóðum þér endurnýjun. Það er stefna okkar að framlengja eða endurnýja alla leigusamninga. Í undantekningartilvikum mun framlenging þó ekki vera möguleg. Þau tilvik geta verið til dæmis:

  • Ógreidd húsaleiga og vanefndir
  • Brot á ákvæðum leigusamnings er varðað geta riftun
  • Útrunnin bankaábyrgð eða vottorð frá Leiguvernd
  • Ef til stendur að selja leiguhúsnæðið á næstu sex mánuðum
  • Ef nauðsynlegar viðgerðir liggja fyrir á næstu sex mánuðum, sem gera húsnæðið óíbúðarhæft um einhvern tíma

Er samningurinn uppsegjanlegur?

Ef aðstæður hjá þér breytast og viljir þú flytja úr íbúðinni fyrr en áætlað var þá getur þú sagt upp leigusamningi þínum hvenær sem er á leigutímanum. Uppsagnarfrestur ræðst af tegund samnings sem er í gildi hverju sinni og er annað hvort þrír eða sex mánuðir.

Uppsögn þarf að berast okkur skriflega með tölvupósti á al@al.is eða berast okkur með öðrum hætti á skrifstofu Ölmu. Uppsagnarfrestur miðast við mánaðarmót og hefst um næstu mánaðarmót eftir að uppsögn berst. Samningurinn er óuppsegjanlegur af hálfu Ölmu á leigutímanum nema í undantekningartilvikum sem talin eru upp hér fyrir ofan.

Hversu háa tryggingu þarf að leggja fram?

Yfirleitt er farið fram á tryggingu sem jafngildir tveggja mánaða leigu. Það getur þó verið í einstaka tilvikum að farið sé fram á tryggingu sem nemur þriggja mánaða leigu.

Sveigjanleiki

Við vitum að fjölskylduhagir, þarfir og óskir um búsetu geta breyst með tímanum og viljum við því hjálpa þér að skipta um hverfi, stækka eða minnka við þig eftir þörfum. Með fjölbreyttu úrvali af leiguíbúðum reynum við alltaf að koma til móts við þig eftir því sem framboð og aðstæður leyfa. Hafðu samband við okkur ef þú hefur áhuga á flutningi og við munum í sameiningu finna húsnæði sem hentar þér.

Óvæntar aðstæður geta einnig komið upp er tengjast fjárhag heimilisins sem gera haft áhrif á skuldbindingar okkar. Ef þörf er á að semja um greiðslufrest eða greiðsluskiptingu, hvetjum við þig til að hafa samband við okkur. Mikilvægt er að hafa samband áður en leiga fellur á eindaga og við reynum í sameiningu að finna farsæla lausn.

24/7 þjónusta

Óhöpp geta gerst og neyðartilfelli komið upp á versta tíma. Neyðartilfelli eru skilgreind sem atvik sem ógnað geta heilsu, öryggi eða húsnæði og þarfnast tafarlausra viðbragða. Dæmi um neyðartilfelli er alvarlegur leki eða stífla sem veldur vatnssöfnun eða rafmagnsbilun sem getur valdið eldhættu.

Hjá okkur starfar öflugt teymi sem sinnir viðhaldi íbúða og er þér innan handar með allt sem snýr að leigusamningnum þínum. Þökk sé góðu samstarfi við Securitas getum við tryggt aðgang að þjónustu allan sólarhringinn.

Ef um neyðartilfelli er að ræða getur þú haft samband við okkur í síma 519 6450 og fengið aðstoð allan sólarhringinn. Skrifstofa okkar er opin virka daga milli 9-15. Utan opnunartíma eru símtöl áframsend til neyðarþjónustu Securitas.