10.12.2019
Alma lokar skrifstofu sinni í dag kl 14:00 vegna veðurs. Við verðum þó áfram til staðar og svörum tölvupósti fram eftir degi á al@al.is.
Við hvetjum viðskiptavini okkar á að fylgjast vel með veðurfréttum, gæta að lausum munum á svölum og í görðum og sömuleiðis að huga að niðurföllum í vonda veðrinu.
https://www.vedur.is/vidvaranir
27.11.2019
Frá og með mánudeginum 2. desember verður skrifstofa Ölmu opin milli klukkan 9 og 15, klukkustund styttra en áður. Breytingin er liður í því að auka og bæta rafræna þjónustu og stytta vinnuviku starfsfólks, í takt við nýja kjarasamninga.
Með aukinni rafrænni þjónustu fækkar tímafrekum og óumhverfisvænum heimsóknum á skrifstofuna og viðskiptavinir geta notið góðrar þjónustu heima í stofu!
25.10.2019
Á dögunum tók Alma í gagnið rafrænar undirskriftir í samvinnu við Taktikal, en nú geta viðskiptavinir undirritað leigusamninga á örfáum andartökum í gegnum snjalltæki í stað þess að gera sér ferð á skrifstofuna og skrifa undir bunka af pappírum. Með því sparast dýrmætur tími viðskiptavina, auk þess sem óumhverfisvænum ferðalögum milli bæjarhluta er fækkað til muna og ekkert er prentað út. Hafi viðskiptavinir hug á því að þinglýsa sínum leigusamning er lítið mál að fá útprentað eintak hjá okkur þótt undirritað hafi verið rafrænt í upphafi.
Breytingin rímar vel við tvö af lykilmarkmiðum Ölmu; að bjóða viðskiptavinum sínum sífellt betri þjónustu og að setja umhverfið alltaf í fyrsta sæti þegar færi gefst!
15.10.2019
Eftir að hafa fengið frábæra fræðslu frá Íslenska Gámafélagið um umhverfisvitund og flokkun ákvað starfsfólk Ölmu að taka til hendinni og fegra nærumhverfi sitt í Laugardalnum. Á aðeins klukkustundar löngu plokki umhverfis Suðurlandsbraut fylltust fjölmargir ruslapokar, þar sem kenndi ýmissa grasa, en m.a. mátti finna fótbolta, fatnað og hluta úr bílhræjum!
10.10.2019
Bleiki mánuðurinn er runninn upp og Bleika slaufan 2019 hefur litið dagsins ljós. Í ár snýr áhersla átaksins að því að engin kona upplifi sig eina í veikindum sínum.
Alma sýnir stuðning í verki með því að kaupa slaufuna fyrir allt starfsfólk fyrirtækisins. Bleiki dagurinn var svo tekinn alla leið á skrifstofunni þar sem hópurinn skartaði sínu fegursta (og bleikasta)! Myndir frá deginum má finna á Facebook síðu Ölmu.
2.10.2019
Í október var Alma valin framúrskarandi fyrirtæki af Creditinfo og komst auk þess á lista yfir fyrirmyndarfyrirtæki Viðskiptablaðsins og Keldunnar þriðja árið í röð. Aðeins um 2-3% íslenskra fyrirtækja komast á hvorn lista fyrir sig.
Við hjá Ölmu erum þakklát og stolt af þessum árangri, en viðurkenningin er hvatning til að standa okkur sífellt betur!