Alma íbúðafélag | Samfélagsstefna

Samfélagsstefna

Við viljum vera í fararbroddi við mótun á heilbrigðum og faglegum leigumarkaði á Íslandi. Með því að hafa samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi skapast ávinningur fyrir samfélagið, viðskiptavini og hluthafa félagsins. Þess vegna höfum við markað okkur samfélagsstefnu sem fjallar um réttindi leigjenda, umhverfið, jafnrétti og mannauð. Stefna Ölmu er að gera leigumarkaðinn á Íslandi faglegri, fjölskylduvænni og traustari. Við erum sannfærð um að með því að tvinna samfélagsmál saman við reksturinn tryggjum við mestan ávinning fyrir alla.

Samfélagsverkefni Ölmu

Pieta samtökin
Alma hefur stutt við Pieta samtökin frá stofnun þeirra, með því að útvega þeim endurgjaldslaust húsnæði undir starfsemi sína. Samtökin vinna að forvörnum gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og sinna stuðningi við aðstandendur í húsnæðinu, sem stendur við Baldursgötu í miðborg Reykjavíkur og gengur undir heitinu Píeta hús Reykjavíkur. Þangað leitar fjöldi skjólstæðinga á degi hverjum til að sækja stuðning og sérfræðiaðstoð.

Leigjendalína Ölmu og Orators
Alma styrkir Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, til þess að halda úti endurgjaldslausri lögfræðiráðgjöf fyrir alla leigjendur á Íslandi. Hjá Leigjendalínunni svara laganemar spurningum er varða réttindi og skyldur undir handleiðslu lögfræðings. Leigjendalínan hóf göngu sína árið 2017 og hefur frá þeim tíma veitt fjölda leigjenda aðstoð og svarað fyrirspurnum sem m.a. snúa að samskiptum við leigusala, ástandi leiguhúsnæðis, ákvæðum leigusamninga o.fl. Á facebook síðu Leigjendalínunnar má finna nánari upplýsingar um opnunartíma.

Fræðsla um réttindi leigjenda
Alma heldur úti undirvef á heimasíðu sinni þar sem hægt er á einfaldan hátt að leita svara við helstu spurningum sem vaknað geta hjá leigjendum og leigusölum við gerð leigusamnings, á meðan á leigutíma stendur og við lok leigusamnings.

Önnur verkefni
Félagið leggur kapp á að styrkja reglulega tilfallandi samfélagsverkefni. Þannig hefur félagið t.a.m. keypt Bleiku slaufuna fyrir allt starfsfólk sitt undanfarin ár og er almennt lögð rík áhersla á að láta gott af sér leiða eftir því sem færi gefst.

Umhverfi

Félagið leggur ríka áherslu á virðingu fyrir umhverfinu í allri starfsemi sinni, en umhverfisáhrif eru leiðandi þáttur við ákvarðanatöku stjórnenda þegar kemur að fjárfestingum og skipulagi þjónustunnar. Þannig er áhersluatriði í skipulagi eignasafnsins að félagið eigi margar einingar í sömu byggingum og reitum, en með því er óumhverfisvænum ferðum verktaka og annarra viðhaldsaðila á vegum félagsins fækkað og þær styttar. Þá reynir félagið jafnframt að stuðla að því að íbúar geti lifað umhverfisvænum lífsstíl, m.a. með því að leggja áherslu á nálægð við almenningssamgöngur við fjárfestingarákvarðanir.

Undanfarið hefur félagið lagt stóraukna áhersla á rafræna þjónustu og eru viðskiptavinir hvattir til að undirrita leigusamninga með rafrænum hætti, í stað þess að gera sér ferð á skrifstofuna. Er pappírsnotkun þannig minnkuð til muna auk þess sem ónauðsynlegum ferðum milli bæjarhluta er fækkað. Þá fylgist félagið með orkunotkun fasteigna sinna eins og kostur er og grípur tafarlaust til aðgerða ef vísbendingar eru um að orkusóun eigi sér stað vegna bilana eða vanstillingar. Starfsfólk leitast við að flokka og endurvinna þann úrgang sem fellur til við starfsemina og að lágmarka notkun pappírs og óumhverfisvænna efna.

Réttindi leigutaka

Alma leggur áherslu á að viðskiptavinir félagsins búi við húsnæðisöryggi og að milli beggja aðila ríki traust. Félagið vill vera fyrsti kostur fyrir fjölskyldufólk og einstaklinga sem leitast eftir því að leigja til lengri tíma, og vera til fyrirmyndar þegar kemur að því að ástunda fagleg vinnubrögð. Félagið hefur í þeim tilgangi sett sér eftirfarandi vinnureglur sem eru ófrávíkjanlegar:

  • Við gerum skriflegan leigusamning við alla okkar viðskiptavini.
  • Við upplýsum viðskiptavini um þeirra réttindi, förum ítarlega yfir leigusamninginn og svörum öllum spurningum sem kunna að vakna.
  • Við tryggjum að viðskiptavinir okkar geti náð í okkur á öllum tímum sólahrings ef eitthvað kemur upp á.
  • Við aðstoðum viðskiptavini okkar við að finna nýtt húsnæði innan sama hverfis ef þeir vilja stækka eða minnka við sig, til dæmis ef fjölskylduhagir breytast.

Alma vill stuðla að betri vitund meðal almennings um réttindi leigjenda og inntak þeirra laga og reglna sem gilda um leigu íbúðarhúsnæðis og stendur að ýmsum samfélagsverkefnum í því skyni. Það er von Ölmu að með því að stuðla að fræðslu meðal leigjenda og leigusala verði leigumarkaðurinn faglegri og traustari.

Mannauður

Það er mikilvægt fyrir þekkingar- og þjónustufyrirtæki eins og Ölmu að búa yfir öflugum mannauði. Félagið leitast við að ráða vel menntað starfsfólk með fjölbreytta reynslu og leggur áherslu á að að skapa gott starfsumhverfi þar sem fólki líður vel. Með því að búa þannig í haginn að starfsfólk fái hvatningu, sveigjanleika og tækifæri til að þróast í starfi stuðlar félagið að aukinni ánægju meðal starfsfólks, lágri starfsmannaveltu og betri afköstum.

Starfsfólk er hvatt og stutt til að sækja sér nýjustu þekkingu, eftir atvikum með námskeiðum og endurmenntun þegar við á. Þá er lögð rík áhersla á þægindi og aðbúnað starfsfólks á vinnustað og sveigjanleika og vöxt í starfi, auk þess sem félagið styrkir starfsfólk til hreyfingar og heilsubótar utan vinnutíma.

Jafnrétti

Alma greiðir körlum og konum sömu laun fyrir sömu störf. Við ráðningu á nýjum starfsmanni er horft til eðli starfsins og ábyrgðar þegar laun eru ákvörðuð en ekki til kynferðis, kynhneigðar, trúar eða kynþáttar. Það sama á við þegar kemur að viðskiptavinum okkar. Við mat á umsóknum um íbúðir er litið til faglegra þátta, en aldrei til kynferðis, kynhneigðar, trúar eða kynþáttar.

Viðhald og rekstur fasteigna

Alma á í viðskiptum við fjölda verktaka um land allt. Lögð er áhersla á að þeir verktakar starfi eftir sambærilegum gildum og félagið m.t.t. umhverfismála, jafnréttis og aðbúnaðar starfsfólks. Þær ófrávíkjanlegu kröfur eru enn fremur gerðar til þeirra aðila sem félagið á viðskipti við að þeir virði réttindi starfsfólks, greiði laun samkvæmt kjarasamningum og ráði ekki börn undir 16 ára aldri til starfa. Jafnframt er krafa gerð um að verktakar endurnýti efni og endurvinni úrgang sem til fellur eftir því sem kostur er og fargi spilliefnum á viðeigandi hátt.